Sarpur fyrir september, 2009

Hver fer með skipulag Nónhæðar?

september 14th, 2009

Ágæti íbúi Nónhæðar

Kristján Snorrason hefur, fyrir hönd KS-verktaka, boðað íbúa Foldarsmára 2-22 til „samráðsfundar um skipulag Nónhæðar“¹. Boð Kristjáns um samráð er merkingarlaust nema hann ráði skipulagi Nónhæðar².

Samkvæmt Skipulags- og byggingarlögum fer skipulagsnefnd með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar. Stjórn samtakanna Betri Nónhæð hefur átt fund með sviðsstjóra Skipulags- og umhverfissviðs Kópavogs um skipulagsmál svæðisins. Nýlega óskaði sviðsstjórinn eftir framhaldi viðræðna. Stjórnin tók ósk sviðsstjórans vel en með ákveðnum fyrirvörum þó. Þrátt fyrir þetta
boðar Kristján Snorrason samráðsfund um skipulag Nónhæðar með íbúum Foldarsmára 2-22. Af þessum sökum hyggst stjórn samtakanna kanna hjá skipulagsyfirvöldum Kópavogs hvort Kristján Snorrason:

  1. Hafi umboð Bæjarstjórnar eða Skipulagsnefndar Kópavogs til að fara með skipulag Nónhæðar í samráði við fundarmenn?
  2. Vinni skipulag Nónhæðar í samráði við fundarmenn, með þegjandi samþykki Bæjarstjórnar eða Skipulagsnefndar Kópavogs?
  3. Vinni skipulag Nónhæðar með velþóknun Bæjarstjórnar eða Skipulagsnefndar Kópavogs í samráði við fundarmenn?
  4. Auglýsi, átölulaust af hálfu Bæjarstjórnar eða Skipulagsnefndar Kópavogs, að hann leiti ráða hjá fundarmönnum og hyggist breyta skipulagi Nónhæðar ef honum geðjast ráð þeirra?
  5. Hafi loforð skipulagsyfirvalda í Kópavogi um að breytingar á aðalskipulagi verði auglýstar þrátt fyrir að skilyrði 5. málsliðar 16. greinar Skipulags og byggingarlaga³ séu ekki uppfyllt?

Fyrir hönd stjórnar samtakanna Betri Nónhæð
Ásmundur Hilmarsson

1) Sjá viðhengi: KS fundarbod 090908.
2) „Allt land innan Fífuhvammsvegar, Smárahvammsvegar og Arnarnesvegar er
talið með í flatarmáli Nónhæðar.“, Aðalskipulag Kópavogs 2000-2012, bls 18
3) „Þegar að loknum sveitarstjórnarkosningum metur sveitarstjórn hvort
ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið. Um málsmeðferð á endurskoðaðri
áætlun fer sem um gerð nýs aðalskipulags væri að ræða.“

Ólafsvíkuryfirlýsingin

september 12th, 2009

Á fundi bæjarstjórnar þann 28. júlí var einróma samþykkt að fela bæjarstjóra að undirrita Ólafsvíkuryfirlýsinguna. Með því að samþykkja hana heitir bæjarstjórnin því að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar, meðal annars með því að virkja íbúa, félagasamtök og aðra í verkefnum sem tengjast Staðardagskrá 21.

Það er einlæg von íbúanna að bæjaryfirvöld standi við þetta og hafi samráð við íbúa og félagasamtök þeirra, það er engin tilviljun að íbúasamtök hafa risið upp í Kópavogi undanfarin ár vegna einhliða ákvarðana bæjaryfirvalda.