Sarpur fyrir janúar, 2008

Fundur um skipulagsmál

janúar 10th, 2008

Stjórn íbúasamtakanna Betri Nónhæð mætti á fund hjá Skipulagsstjóra Kópavogs (ásamt fulltrúum og eigendum lóðanna) seinnipartinn í dag til þess að berja augum breyttar tillögur verktaka.  Að vísu voru það aðeins KS verktakar sem kynntu nýjar tillögur fyrir lóðina á Nónhæð en eigandi lóðarinnar að Arnarsmára 32 var með sömu tillögur og kynntar voru s.l. sumar en þeir sýndu hins vegar nýja skuggaútreikninga!

Tillögur KS verktaka gera nú ráð fyrir 170 íbúðum og lægri húsum; hæsta húsið  verði um 8 hæðir.  Gert er ráð fyrir að bílastæði verði að mestu neðanjarðar en hins vegar verði aðkomuleiðir/akstursleiðir inn á reitinn þær sömu þ.e. um Smárahvammsveg og Arnarsmára.

Það er vægt til orða tekið þegar sagt er að þessar tillögur KS verktaka hafi fallið í grýttan jarðveg hjá stjórn Betri Nónhæðar.  Ljós er að það sem kynnt var er ekki í nokkru samhengi við þær óskir sem íbúar hafa sett fram um þennan reit!   Næsta skref stjórnarinnar verður að funda með Skipulagsstjóra Kópavogs þar sem farið verður yfir þá stöðu sem nú er uppi.

Um tillöguna á lóð Arnarsmára 32 þarf fjalla aðeins nánar um hér!  Byrjum á þessu:

Fréttatilkynning frá Þór Jónssyni upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar þann 21. ágúst 2007:

FRÉTTATILKYNNING
Skipulagsnefnd Kópavogsbæjar hafnaði á fundi sínum síðdegis í dag skipulagstillögum á Nónhæð og Arnarsmára 32. Ákvörðunin tekur til allra þriggja skipulagsstiga.
Nefndin samþykkti að fela bæjarskipulagi að yfirfara athugasemdir sem borist hafa vegna tillagnanna.
Kópavogi, 21. ágúst 2007

Í framhaldi af þessu er rétt að spyrja bæði Skipulagsstjóra Kópavogs og eiganda lóðarinnar hvort ekki hafi verið ætlunin að taka mark á ákvörðun skipulagsnefndar frá því í sumar?!
Hvernig stendur á því að Skipulagsstjóri greini frá því á fundinum að Skipulagsnefnd hafi talið að tillögurnar væru tækar til kynningar þegar um sömu tillögu er að ræða?!  Tillögum beggja lóðanna var hafnað af skipulagsnefnd og það er því algjörlega útilokað að íbúar taki sömu gömlu tillögu að deiliskipulagi Arnarsmára 32 aftur til umfjöllunar!