Sarpur fyrir mars, 2011

Erindi KS-verktaka og andsvar stjórnar Betri Nónhæðar

mars 15th, 2011

Erindi KS-verktaka

KS-verktakar sendu til bæjarráðs bréf og teikningar þar sem lagt er til að breyta skipulagi Nónhæðar og byggja þar blokkir. Í bréfinu er vísað til atvinnuástands á byggingamarkaði sem góðrar ástæðu fyrir því að breyta landnotkun.

Andsvar stjórnar Betri Nónhæðar

Kópavogi 1. mars 2011

Bæjarráð Kópavogs

Í fundargerð Bæjarráðs frá 10. febrúar síðast liðnum kemur fram að KS verktakar hafi sent bæjarráði tillögu að skipulagi á Nónhæð. Bæjarráð vísar tillögunni til skipulagsnefndar til úrvinnslu.

Í nóvember 1991 var samþykkt deiliskipulag Nónhæðar. Með samþykkt deiliskipulagsins varð til samningur um skipulag milli bæjaryfirvalda og væntanlegra íbúa í Nónhæð. Bæjaryfirvöld sáu til þess að verktakar sem byggðu í umboði lóðahafa og verktakar sem byggðu íbúðir til sölu fylgdu skilmálum samningsins. Bæjaryfirvöld hafa falið skipulags­nefnd og byggingarnefnd að gæta þess að núverandi íbúar Nónhæðar fari eftir skilmálum samningsins.

KS verktakar vilja ekki una skilmálum samningsins sem aðrir eru og hafa verið bundnir af. Þó var fyrirtækinu fullkunnugt um skilmála samningsins þegar fyrirtækið keypti skipulagsreitinn Arnarsmára 36 árið 2002.

Við sem erum íbúar í Nónhæð og höfum gengið að skilmálum samningsins um skipulag Nónhæðar gerum ráð fyrir að bæjaryfirvöld standi við sinn hluta samningsins og gæti þess að KS verktakar virði samninginn. Á skipulagsreitnum Arnarsmári 36 er samkvæmt þéttbýlisuppdrætti með aðalskipulagi gert ráð fyrir svæði fyrir þjónustustofnanir og opnu svæði til sérstakra nota.

KS verktakar hafa með alls kyns skipulagshugmyndum reynt að knýja á um breytingar á skipulagi Nónhæðar. Á aðalfundi íbúasamtakanna Betri Nónhæð var samþykkt ályktun (sjá fylgiskjal) um að standa vörð um óbreytt aðalskipulag. Við trúum því að bæjaryfir­völd standi með íbúum og taki ekki stundarhagsmuni verktaka fram yfir hagsmuni íbúa Nónhæðar.

F.h. Stjórnar íbúasamtakanna Betri Nónhæð

Guðrún Benediktsdóttir
Brekkusmára 2

Samhljóða bréf sent:
Skipulagsnefnd Kópavogs
Skipulagsstjóri Kópavogs, Birgir H. Sigurðsson

 

Fylgiskjal með bréfi til Bæjarráðs Kópavogs, dagsett 1. mars 2011

Á aðalfundi íbúasamtakanna Betri Nónhæð, sem var haldinn í Smáraskóla þann 14. apríl 2010, var eftirfarandi ályktun samþykkt með 16 atkvæðum gegn 6:

Samkvæmt aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 er gert ráð fyrir svæði fyrir þjónustustofnanir og opnu svæði til sérstakra nota á Nónhæð. Samkvæmt deiliskipulagi frá 1991 er gert ráð fyrir útivistarsvæði sem er 90% af kolli Nónhæðar.

Þetta hefur þeim átt að vera ljóst sem fjárfestu á kolli Nónhæðar. Fyrir nokkrum vikum endurtók fjárfestirinn kröfu um breytt alskipulag og gerði enn eina tillögu að deiliskipulagi fyrir tröllvaxna íbúðabyggð á kolli Nónhæðar. Tillaga hans er ekki í neinu samræmi við fyrirheit um útivistasvæði né önnur mannvirki í gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi fyrir koll Nónhæðar.

Enn einu sinni þurfa íbúar í Nónhæð og næsta nágrennis að andæfa gegn óraunhæfum skipulagstillögum fjárfestisins sem er rekinn áfram af sérgæsku. Enn einu sinni ætlast fjárfestirinn til þess að hann fái arð af áhættufjárfestingu sinni en íbúar aðliggjandi byggða þoli umhverfisrask og ágang aukinnar umferðar að öðrum kosti leysi bæjarfélagið til sín áhættufjárfestingu hans.

Aðalfundur íbúasamtakanna Betri Nónhæð lýsir eindreginni andstöðu við tillögur um íbúðabyggð á Nónhæð, sem lagðar voru fram í Skipulagsnefnd 16. mars síðast liðinn. Fundurinn hvetur fulltrúa í Skipulagsnefnd og kjörna fulltrúa íbúa í bæjarstjórn til að hafna tillögu fjárfestisins um tröllvaxna íbúðabyggð og fullkomið virðingarleysi fyrir útivistarsvæði á kolli Nónhæðar.

til_baejarrads_kopavogs_2011_03_01 (PDF)

Umsögn bæjarráðs vegna andsvars

Bæjarráð – 2585

Haldinn í í Fannborg 2, fundarherbergi á millilofti,
3.3.2011 og hófst hann kl. 08:15
Fundinn sátu: Guðríður Arnardóttir formaður, Hjálmar Hjálmarsson aðalfulltrúi, Rannveig H Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi, Ármann Kristinn Ólafsson aðalfulltrúi, Gunnar Ingi Birgisson aðalfulltrúi, Ómar Stefánsson áheyrnarfulltrúi, Guðný Dóra Gestsdóttir aðalfulltrúi, Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri og Páll Magnússon bæjarritari
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon, bæjarritari

22. 1102108 – Arnarsmári 36. Tillaga að deiliskipulagi
Frá stjórn íbúasamtakanna Betri Nónhæð, dags. 1/3, varðandi erindi í bæjarráði 10/2 sl. um skipulag á Nónhæð, sem vísað var til skipulagsnefndar til úrvinnslu.
Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

„“Meirihluti bæjarráðs bendir á að vinna við aðalskipulag er í gangi.  Aðalskipulag Kópavogs verður mótað í samstarfi við íbúa bæjarins og út frá þeirra hagsmunum.

Guðríður Arnardóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Guðný Dóra Gestsdóttir, Rannveig Ásgeirsdóttir““

Bæjarráð vísar erindinu til skipulagsnefndar til úrvinnslu.