Sarpur fyrir maí, 2007

Viðtal við Gunnar

maí 26th, 2007

Þann 28. apríl s.l. átti Hjálmar Sveinsson dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu viðtal við Gunnar I. Birgisson bæjarstjóra í Kópavogi.  Í viðtalinu nefndi hann m.a. að bærinn væri að gera átak í útivistarsvæðum og að þeir reyndu að koma háhýsum niður í dalina.
Þetta viðtal var mjög athyglisvert í ljósi þess sem til stendur að gera á Nónhæð.  Viðtalið má hlusta á hjá ruv.is á podcasti/hlaðvarpi. Grípum hér niður í viðtalið:

….. Þetta er náttúrlega ekki okkar sýn á málin, við höfum kappkostað það í okkar skipulagi, okkar nýju svæðum, að það er að blanda saman byggðinni, bæði sérbýli og fjölbýli, og hafa lágreista byggð og líka s.k. púll? byggingar eða turna, sem eru afar vinsælir og þegar við fórum fyrst við Reykjanesbrautina þá vorum við ekki með bílastæðahús en nú fylgir bílastæðahús nánast öllum þessum fjölbýlishúsum þannig að það sem það passar höfum við sett þessa turna.  Ég kannast ekki við að það sé neitt bílastæðaflæmi nema þá við Smáralind, það var nú gert til að það yrði nú gott aðgengi og annað fyrir það.  Annars er með marga arkitekta að þeir virðast nú hafa einkarétt á lögildum smekk á skipulagi.  Við erum að reyna að vanda þetta…..


…… Það er ekkert annað sveitarfélag með eins mikið af opnum svæðum inni í íbúðarsvæðum heldur en við og á nýjum svæðunum, þá ætlum við að gera enn betur þar sem við verðum með stærsta heilstæðasta svæðið með skógrækt upp á eina 10 hektara inni í miðju íbúðarsvæði, þannig að við höfum og líka reynt að hafa mikið af göngustígum og annað slíkt og höfum látið það fylgja uppbyggingunni strax, og einnig náttúrulega þjónusta, grunnskólana og leikskólana og íþróttamannvirki, þetta kemur allt með uppbyggingunni og þessi góða þjónusta og annað hefur náttúrulega orsakað það að við erum vinsælt bæjarfélag.

Fyrstu fréttir

maí 25th, 2007

Skömmu fyrir alþingiskosningarnar í maí s.l. fréttu nokkrir íbúar Foldarsmára af því að til stæði að hefja umfangsmiklar byggingarframkvæmdir á Nónhæð.  Kom þetta m.a. fram á teikningum af lóðinni sem borist höfðu en einnig staðfesti Ármann Kr. Ólafsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar það í samtali við vefara.

Skömmu eftir kosningar hafði vefari samband við Smára Smárason Skipulagsstjóra Kópavogs og fór yfir hugmyndir að uppbyggingu á Nónhæð en einnig gat hann um fyrirhugaðar byggingar á reit bensínstöðvarinnar.  Í leiðinni nefndi hann umfangsmikla uppbygginu sem væri verið að skipuleggja á svæði meðfram Reykjanesbraut og hér væri verið að skipuleggja miðju höfuðborgarsvæðisins.  Það mátti skilja að þarna ættu eftir að koma stórar byggingar og sennilega flestar þeirra upp í loftið.

Vefari fékk eingöngu að sjá gögnin en afrit fékkst ekki.