Fundargerðir skipulagsnefndar

Hér er samantekt um feril umfjöllunar um skipulagstillögur sem Friðjón Guðjohnsen sendi til vefsetursins. Dagsetningar eru tengdar viðkomandi fundargerðum á vef Kópavogsbæjar.

2. sept. 2003 Fyrirspurn vegna stækkunar Arnarsmára 32 um 3-400 m² hafnað af skipulagsnefnd.

15. júní 2004 Lagt fram í skipulagsnefnd, bréf frá KS verktökum hf varðandi uppbyggingu á Nónhæð.

19. sept. 2006 Frumhugmyndir ARKÍS um 20 hæða og 12 hæða turna á Nónhæð lagðar fram til kynningar í skipulagsnefnd.

5. des. 2006 Fyrri hugmyndir ARKÍS um 20 og 12 hæða turna á Nónhæð lagðar fram aftur. Einnig erindi frá ARKÍS um endurskoðað skipulag þar sem gert er ráð fyrir 9 hæða og 7 hæða turnum. Tillaga frá KR.ark lögð fram um 8 og 9 hæða turn. Lóð stækkar úr 1.147 m² í 2.122 m². Skipulagsnefnd felur bæjarskipulagi að skipuleggja þetta svæði (væntanlega á grundvelli hugmynda ARKÍS og KR.ark).

19. des. 2006 Tillaga KR.ark um breytt deiliskipulag Arnarsmára 32 lögð fram að nýju og frekari gögn hönnuðar kynnt. Skipulagsnefnd samþykkir tillöguna og vísar til bæjarráðs og bæjarstjórnar.

16. jan. 2007 Bæjarráð frestar afgreiðslu deiliskipulags v/Arnarsmára 32 og óskar eftir tillögu að verði fyrir lóðarstækkun.

20. mars 2007 KS verktakar og ARKÍS kynna skipulagsnefnd tillögur sínar um 20 og 12 hæða turna annarsvegar og 9 hæða og 7 hæða turna hins vegar. Nefndin felur skipulagsstjóra að vinna að málinu.

3. apríl 2007 Skipulagsnefnd samþykkir tillögu bæjarskipulags um breytt svæðisskipulag fyrir Arnarsmára 32 og Nónhæð. Í stað þjónustustofnana og opins svæðis á þar að vera þétt íbúðabyggð. Tillöguna á að kynna sveitarfélögunum sem standa að svæðisskipulaginu. Málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Skipulagsnefnd samþykkir einnig tillögu bæjarskipulags um breytt aðalskipulag á þessu svæði. Enn fremur samþykkir skipulagsnefnd deiliskipulag fyrir Nónhæð tillögu um tvo turna, 14 hæða og 12 hæða. Íbúðafjöldi er 215 og fermetrafjöldi 29.000 m². Bæta á 1.120 m² (væntanlega af bæjarlandi) við lóðina. Til viðbótar samþykkir skipulagsnefnd aftur deiliskipulag fyrir Arnarsmára 32 sem lagt var fram 19. des. Tillagan gerir ráð fyrir 8 og 9 hæða turnum og að lóð stækki úr 1.147 m2 í 2.122 m2 (væntanlega af landi í eigu bæjarins). Öllum tillögunum er vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar.

17. apr. 2007 Bæjarráð frestar afgreiðslu tillagana um svæðis-, aðal- og deiliskipulag.

10. maí 2007 Bæjarráð samþykkir allar tillögurnar um skipulag og vísar þeim til bæjarstjórnar. Tillagan um breytt svæðisskipulag verður kynnt sveitarfélögunum sem stóðu að því.

19. júní 2007 Skipulagsnefnd samþykkir að fela skipulagsstjóra að boða til kynningarfundar með íbúum 28. júní.


Upplýsingar af heimasíðu Kópavogsbæjar

07.201 Nónhæð, Arnarsmári 32 – svæðisskipulag, breyting.

Lagt er fram tillaga bæjarskipulagsins dags. 29. mars 2007 að breyttu Svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 fyrir Nónhæð og Arnarsmára 32. Í breytingunni felst að svæði fyrir blandaða landnotkun þjónustustofnana og opins svæðis, verður íbúðasvæði. Áætlað er að á svæðinu verði byggðar 230 íbúðir og þéttleiki byggðarinnar verði um 82 íbúðir á ha. Umrædd breyting á Nónhæð kallar á breytingar á töflu á bls. 47 í greinargerð svæðisskipulagsins sem nemur fyrirhuguðum fjölda íbúða þ.e. verði 1530 í stað 1.300.
Meðfylgjandi: Skýringaruppdrættir. Greinagerð um hljóðvist vegna umferðar.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu á grundvelli 2. mgr. 14. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Tillagan verði kynnt þeim sveitarfélögum er stóðu að gerð svæðisskipulagsins og vísar henni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar Guðmundur Örn Jónsson vék af fundi.

07.202 Nónhæð, Arnarsmári 32 – aðalskipulag, breyting.

Lagt er fram erindi bæjarskipulagsins 29. mars 2007 að breyttu Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 fyrir Nónhæð og Arnarsmára 32.
Nónhæð:
Skipulagssvæðið afmarkast af Arnarnesvegi í suður, Smárahvammsvegi í austur, raðhúsum við Foldasmára 2-22 í norður og aðkomu að leikskólanum í Arnarsmára í vestur. Í tillögunn felst að svæði með blanda landnotkun þjónustusvæðis og opins svæðis er breytt í íbúarsvæði . Á breytingarsvæðinu sem er um 2,6 ha að flatarmáli eru áætlaðar liðlega 215 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Þéttleiki byggðarinnar er því áætlaður um 82 íbúðir á ha. Byggingarmagn á svæðinu er fyrirhugað um 29.000 m2 og nýtingarhlutfall um 1,1. Áætluð bílastæðaþörf er um 430 stæði sem að miklu leyti verða í 18.000m2 bílakjallara. Aðkoma að svæðinu verður frá Arnarsmára og af nýrri tenginu við Smárahvammsveg.
Arnarsmári 32:
Skipulagssvæðið afmarkast af leikskólalóð Arnarsmára og opnu svæði í suð- vestur, aðkomu að leikskólanum í suð- austur og götunni Arnarsmára í norður. Í tillögunni felst að landnotkun lóðarinnar nr. 32 við Arnarsmára breytist úr verslunar- og þjónustusvæði í íbúarsvæði, hluti opins svæðis vestan lóðarinnar breytins einnig í íbúarsvæði. Á breytingarsvæðinu sem er liðlega 0,2 ha að flatarmáli er áætlað að fjarlægja núverandi hús og bensínstöð og byggja 8 og 9 hæða fjölbýli með þakhæð, alls 15 íbúðir. Byggingarmagn á svæðinu er fyrirhugað um 3.000 m2 og nýtingarhlutfall um 1.5. áætluð bílastæðaþörf er 30 stæði sem verða í ca 1.300 m2 bílageymslu, gestastæði verða á svæði sem er samnýtt með leikskólanum Arnarsmára. Aðkoma að svæðinu verður frá Arnarsmára.
Meðfylgjandi: Skýringaruppdrættir. Greinagerð um hljóðvist vegna umferðar.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu, hún verði auglýst í samræmi við 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar Guðmundur Örn Jónsson vék af fundi.

07.203 0701185 – Nónhæð – deiliskipulag.

Á fundi skipulagsnefndar 19. september 2006 var lagt fram erindi frá ARKÍS ehf. dags. 13. september 2006 varðandi frumhugmyndir að skipulagi Nónhæðar. Tillagan gerir ráð fyrir tveim turnbyggingum. Einni 20 hæða og einni 12 hæða. Að öðru leyti er um lágreista byggða að ræða 2-4 hæðir. Íbúðafjöldi verður um 210 og nýtingarhlutfall verður 0,94.
Á fundi skipulagsnefndar 5. desember 2006 var erindið lagt fram að nýju ásamt erindi frá ARKÍS ehf. dags. 24. nóvember 2006. Erindinu fylgir endurskoðuð frumhugmynd að skipulagi. Endurskoðuð frumhugmynd gerir ráð fyrir tveimur háreistum byggingum, einni 9 hæða og einni 7 hæða. Að öðru leyti er gert ráð fyrir lágreistri byggð, 2-4 hæða.
Skipulagsnefnd felur bæjarskipulagi að vinna að gerð svæðis- og aðalskipulag og að unnið verði deiliskipulag fyrir ofangreint svæði.
Á fundi skipulagsnefndar 20. mars 2007 var kynnt tillaga fulltrúa lóðarhafa frá KS verktökum og Aðalsteini Snorrasyni frá Arkís, á útfærslu. Skipulagsstjóra er falið að vinna að málinu eins og fram kom á fundinum.
Lagt er fram að nýju tillaga sem gerir ráð fyrir tveimur háreistum byggingum, einni 14 hæða og einni 12 hæða. Að öðru leyti er gert ráð fyrir 2-6 hæða byggð. Óskað er eftir bæjarlandi til stækkunar lóðar sem nemur 1.140 m2 þannig að heildarstærð lóðar verði 26.116m2. Samtals verður hámarksfermetrafjöldi íbúða um 29.000 m2 og íbúðarfjöldi 215. Hámarksstærð bílakjallara verði 18.000 m2 og nýtingarhlutfall um 1.1. Gert er ráð fyrir 430 bílastæðum á lóðinni.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu, hún verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar Guðmundur Örn Jónsson vék af fundi.

07.204 0701173 – Arnarsmári 32 – deiliskipulag.

Á fundi skipulagsnefndar 5. desember 2006 er lögð fram tillaga KR.ark dags. 1. desember 2006 f.h. lóðarhafa að breyttu skipulagi að Arnarsmára 32. Í útfærslunni felst að núverandi hús og bensínstöð er rifið og í stað þess komi íbúðarhús, sem er 8 og 9 hæðir. Gert er ráð fyrir 15 íbúðum. Einnig niðurgrafinni bílageymslu fyrir 30 bíla, auk þess 8 gesta bílastæðum ofanjarðar. Heildarflatarmál húss er áætlað 2.100 m2. Gert er ráð fyrir torfi á þaki bílageymslu. Lóð stækkar úr í 1147 m2 í 2122 m2.
Skipulagsnefnd felur bæjarskipulagi að vinna að gerð svæðis – og aðalskipulags og að unnið verði deiliskipulag fyrir ofangreint svæði. Lagt fram að nýju. Kynnt frekari gögn hönnuðar.
Á fundi skipulagsnefndar 19. desember 2006 var samþykkt framlögð tillaga að hún verði auglýst í samræmi við 18. gr. og 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 21. desember 2007 var afgreiðslu málsins frestað. Jafnframt var lögð fram umsögn Steingríms Haukssonar, deildarstjóra hönnunardeildar, dags. 20/12, um stækkun lóðarinnar Arnarsmára 32 í bæjarlandi. Bæjarráð óskar eftir tillögu að verði á lóðarstækkun frá deildarstjóra hönnunardeildar og frestar afgreiðslu.
Lagt fram að nýju.
Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillögu, hún verði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar Guðmundur Örn Jónsson vék af fundi.

Be Sociable, Share!

Lokað er fyrir athugasemdir.